Leikhópurinn Lotta mun sýna leiksýninguna Gilitrutt á Hellu í dag kl. 13 og á Hvolsvelli kl. 16. Á morgun mánudag verður sýning á Selfossi kl. 18.
Sýningin á Hellu er á lóð Heklukots en sýningin á Hvolsvelli er á gamla róló. Sýningin á Selfossi er á tjaldsvæðinu við Engjaveg.
Gilitrutt er skrifað af Önnu Bergljótu Thorarensen, sem skrifar nú sitt þriðja verk fyrir hópinn en hún skrifaði einnig Stígvélaða köttinn og Mjallhvíti. Hér blandar hún ævintýrunum um Búkollu, geiturnar þrjár og tröllskessuna Gilitrutt saman í splunkunýtt og sprellfjörugt leikrit.
Gilitrutt er tröllskessa og hún er sífellt að reyna að lifa drauminn, að vera ægilega góð í því að vera vond. En Bárður bróðir hennar er sífellt að skemma það fyrir henni með klaufaskapnum og óþolandi góða hjartanu sínu. Kýrin Búkolla og Þóra vinkona hennar búa saman á bænum Bakka þar sem Freyja, móðir Þóru og Þór bróðir hennar gera þeim lífið leitt með yfirgangi og skepnuskap. Geiturnar þrjár leggja á ráðin um að fara yfir brúna sem Gilitrutt gætir því grasið er svo miklu grænna hinu megin. Þessi þrjú sígildu ævintýri blandast saman í heljarinnar glens og gaman, söng og dans fyrir börn á öllum aldri.
Sýningar Lottu hafa orð á sér fyrir að vera sérstaklega fullorðinsvænar barnasýningar og Gilitrutt ætti sannarlega ekki að svíkja aðdáendur Lottu í þeim efnum.
Miðaverð er 1500 kr. Selt á staðnum. Stofnfélagar hjá Sjóvá fá frítt á sýninguna fyrir tvö börn.