Nýja sunnlenska hljómsveitin HAGL gaf út sitt fyrsta lag síðastliðinn fimmtudag, lagið Veðja.
Meðlimir hljómsveitarinnar eru Sunnlendingar í meirihluta og eiga rætur sínar að rekja til Selfoss, Hveragerðis, Stokkseyrar og Dalvíkur. Hljómsveitina skipa þeir Þórir Geir Guðmundsson, Matthías Hlífar Pálsson, Tómas Smári Guðmundsson og Dagur Atlason. Þeir hafa verið viðloðandi tónlist frá unga aldri en þetta er í fyrsta skipti sem þeir sameina krafta sína og úr varð hljómsveitin HAGL.
„Við erum bara strákar að sunnan að skemmta okkur,“ segir Þórir í samtali við sunnlenska.is „Þetta er búið að vera í pípunum í smá tíma og bara virkilega gaman að við séum loksins búnir að gefa út okkar fyrsta lag, Veðja“.
Strákarnir segjast vera virkilega spenntir fyrir framtíðinni og að það sé margt á döfinni hjá þessari nýju sunnlensku hljómsveit, meðal annars útgáfa á nýju lagi þann 5. september næstkomandi.