Glæsilegur hópur á Guitarrama Bjössa Thor

Listamennirnir sem koma fram á Guitarrama Bjössa Thor. Ljósmynd/Aðsend

Guitarrama, gítarhátíð Bjössa Thor verður nú haldin í tuttugasta sinn þann 30. október, í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

Ekkert verður til sparað þegar Björn snýr aftur í heimabæinn þar sem hann „sleit fyrstu strengina“. Björn hefur valið hópinn af mikilli natni á þessum tímamótum og má búast við skemmtun á heimsmælikvarða sem enginn alvöru tónlistarunnandi má láta framhjá sér fara.

Þeir sem fram koma eru:
Óskar Logi, Vintage Caravan
Unnur Birna, Jethro Tull, Fjallabræður o.fl.
Þórður Árnason, Þursaflokkurinn, Stuðmenn o.fl.
Jóhann Helgason, Change, Þú og ég, Magnús & Jóhann o.fl.
Reynir Hauksson, Flamenco gítarleikari á heimsmælikvarða
Birgir Hrafnsson, Ævintýri, Change, Svanfríður, Pops o.fl.

Ásamt hinni alþjóðlegu og heimsfrægu sveit Guitar Islancio.

Þeim til fulltingis verður rythmaparið Skúli Gíslasom trymbill og Sigurgeir Skafti bassaleikari, en þeir teljast til öflugri hrynpara landsins um þessar mundir. Eins og á öllum stærri og betri viðburðum þá verður að sjálfsögðu leynigestur, erlend stjarna.

Þessi listi ætti því að fullvissa áhugsama um að hér er í uppsiglingu kvöld sem verður lengi í minnum haft. Tónleikar hefjast klukkan 20:00, húsið opnar 19:30. Að loknum tónleikum er hægt að tylla sér í Mathiesen stofuna og hafa það ansi hreint notalegt. Á þessa einstöku kvöldstund er miðaverð 5.990,- og fást miðarnir á tix.is og við hurð, ef ekki verður uppselt.

Fyrri greinOftast strikað yfir Ásmund
Næsta greinÞjótandi annast gatnagerð í Kjarröldu