Fjölskyldu, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í Blóma verður haldin um næstu helgi í Hveragerði. Boðið verður upp á fjölbreytta tónlistardagskrá sem nær hápunkti með stórtónleikum í lystigarðinum Fossflöt á laugardagskvöldið.
„Þetta er annað árið í röð sem við höldum þessa hátíð. Viðtökur gesta voru góðar í fyrra og við höldum okkar striki til þess að efla tónlistar- og menningarlífið á Suðurlandi. Markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman og bjóða upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason hjá Menningarfélagi Suðurlands, sem stendur að hátíðinni.
Dagskráin hefst á föstudaginn klukkan 17 með fjölskyldutónleikum Reykjavíkurdætra. Um kvöldið verða svo goðsagnirnar Magnús og Jóhann með einstaka tónleika og að þeim loknum heldur trúbador uppi stemningunni.
Vegleg og fjölbreytt dagskrá
Á laugardaginn verður margt í boði. Barnadagskrá og markaður frá klukkan 13 og Suðurlandsdjazz með Kidda Svavars og Dagný Höllu klukkan 15. Klukkan 20 á laugardagskvöld verða svo stórtónleikar á útisviðinu þar sem fram koma Jón Jónsson, Stebbi Jak, Unnur Birna, Jógvan Hansen og Guðrún Árný. Síðar um kvöldið verður svo dansleikur í tjaldinu með Stebba Hilmars, Gunna Óla og fleirum. Á sunnudag verður svo kökukaffi á Rósakaffi og stórsveitin Góss endar svo helgina í Reykjadal Skála.
„Þetta er vegleg og fjölbreytt dagskrá og fólk má búast við almennri gleði og glæsilegheitum. Það er frítt á alla viðburði á útisviðinu en annars er miðasala á Tix þar sem hægt er að kaupa helgarpassa eða aðgang að stökum viðburðum. Þetta verður dásamlegt, það er auðvelt að búa til góða skemmtun og glæsilega stemmningu í þessari perlu sem lystigarðurinn Fossflöt er,“ segir Sigurgeir Skafti að lokum.