Út er komin bókin „Góða ferð – handbók um útivist“ eftir Helen Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur.
Bókin er einskonar alfræðirit fyrir útivistariðkendur, bæði byrjendur og lengra komna. Í henni er farið yfir alla grunnþætti útivistariðkunnar, eins og klæða- og útbúnaðarval, rötun og leiðarval, næringu, veður og fyrstu hjálp, svo eitthvað sé nefnt. Í bókinni er að finna svör við ótal spurningum, eins og hvernig eigi að komast hjá því að verða kalt í tjaldi, hvernig einangrun virki, hvernig komast megi hjá ofkælingu og hvernig mismunandi prímusar standa sig við mismunandi hitastig. Þá er sérstakur kafli um hvað skuli gera ef ferðafólk villist.
Höfundar styðjast við margra ára reynslu og þjálfun úr björgunarsveitarstarfi, skátastarfi og almennri ferðamennsku til að fræða lesandann um allt sem þeim finnst mikilvægt að ferðafólk kunni skil á, ætli það til fjalla. Í bókinni er fjöldinn allur af ljósmyndum, skýringarmyndum, listum og töflum sem gera bókina aðgengilega og auðvelda aflestrar.
Meðal ráðgjafa og yfirlesara voru fjallaleiðsögumenn, björgunarsveitarfólk, næringarfræðingur, landfræðingur, leiðbeinandi í fjallamennsku, kennari í fyrstu hjálp og sérfræðingur í útieldun.
Bókina er hægt að lesa sem eina heild, eða nota sem uppflettirit. Hún er prentuð á rakaþolinn pappír, til að hún þoli íslenskt veðurfar, og er í handhægu broti svo hún passar hvort sem er í bakpoka eða hanskahólf á bíl.
Til að fagna útgáfunni bjóða höfundar og útgefandi öllum áhugasömum að koma í bóka- og gjafavöruverslunina Iðu, Lækjargötu 2a, laugardaginn 5. mars kl. 14-16. Boðið verður upp á kaffi, kakó og meðlæti, auk þess sem lifandi útilegutónlist skemmtir gestum og gangandi.
Góða ferð – handbók um útivist er 180 síður á lengd og telur efnisyfirlitið yfir 150 undirkafla.
Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi.