Í kvöld frumsýnir Leikfélag Rangæinga gamanleikinn Góðverkin kalla! í hinu fornfræga Hellubíói á Hellu. Höfundar eru Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en Ármann er jafnframt leikstjóri verksins.
Góðverkin kalla! var upphaflega skrifað fyrir Leikfélag Akureyrar og frumsýnt þar fyrir tuttugu árum síðan. Það hefur notið allnokkurra vinsælda hjá áhugaleikfélögum síðan og er þetta í áttunda sinn sem það er sett upp hjá leikfélagi úr röðum Bandalags íslenskra leikfélaga.
Verkið fjallar á ábyrgðarlausan hátt um það vandræðaástand sem skapast hefur í smábænum Gjaldeyri á Ystunöf. Þar starfa ofvirk góðgerðarfélög, Dívans klúbburinn, Lóðarís og Kvenfélagið Sverðliljurnar, og hafa þau skapað neyðarástand með stanslausum tækjagjöfum til sjúkrahúss þorpsins, í öfgakenndri baráttu þeirra um hvert félaganna er best í að vera gott.
Steininn tekur úr þegar halda á upp á 100 ára afmæli sjúkrahússins og þau ákveða hvert fyrir sig að gefa, nýjasta undratæki læknavísindanna, straumlínugjafa. Læknir þorpsins reynir að sannfæra fólk um að það eina sem vanti sé hlustunarpípa en hver hlustar á svoleiðis píp þegar tækifæri til að gera góðverk af þessari stærðargráðu er annars vegar.
Hellubíó hefur nú verið gert upp er þar rekið veitingahús með ýmsa menningarstarfsemi í gamla salnum. Þar er því hægt að gera sér glaðan dag í nóvember, borða góðan mat og sjá skemmtilega leiksýningu.