Bíóhúsið á Selfossi frumsýndi í gær nýjustu íslensku bíómyndina, Saumaklúbburinn, í leikstjórn Göggu Jónsdóttur eftir handriti hennar og Snjólaugar Lúðvíksdóttur.
Saumaklúbbsins hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en myndin er frá framleiðendum Síðustu veiðiferðarinnar og Ömmu Hófí.
Fimm konur á besta aldri skella sér saman í bústað til að hafa það reglulega gott og slaka á – frjálsar frá sífelldu amstri hversdagsins. Undir huggulegu yfirborðinu leynast þó gamlar syndir sem leysast úr læðingi þegar síst varir.
Með aðalhlutverk fara Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Arndís Egilsdóttir og Helga Braga Jónsdóttir en tökur á myndinni fóru fram í fyrrasumar á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.
Margar stórar myndir á næstunni
Að sögn Marinós Lilliendahl hjá Bíóhúsinu er mikill spenningur fyrir þessari mynd, sem og fleiri myndum sem koma í bíóið á næstu vikum. „Framleiðsla bíómynda stoppaði nánast á tímabili vegn COVID og frumsýningum margra stórmynda var frestað. Núna er að birta til og ég á von á mjög góðu bíósumri og á næstu mánuðum er von á mörgum spennandi myndum. Auk Saumaklúbbsins þá erum við að frumsýna Croods: Ný öld, sem er frábær fjölskyldumynd með íslensku tali. Síðan er þriðja The Conjuring myndin að opna núna og margir sem bíða spenntir eftir henni. Síðan erum við ennþá með Cruellu, virkilega flotta Disney mynd, Pétur Kanínu 2, sem hefur verið mjög vinsæl fjölskyldumynd og líka A Quiet Place Part II sem er magnaður spennutryllir,“ segir Marinó.
„Næstu myndir inn hjá okkur í júní eru In the Heights, Hitman’s Wife’s Bodyguard, Shadowtown og svo níunda Fast & Furious myndin, þannig að það verður nóg að gera í bíó á næstunni,“ bætir Marinó við að lokum.