Laugardaginn 13. ágúst kl. 17:00 verða fyrri tónleikarnir af tvennum í Bókakaffinu á Selfossi og bera þeir heitið Gramsað í gömlum nótum.
Söngvararnir María Sól Ingólfsdóttir, sópran og Gunnlaugur Bjarnason, baríton, munu syngja lög upp úr nótum sem Bókakaffinu hafa áskotnast í gegnum árin. Einar Bjartur Einarsson, leikur með þeim á píanó.
Nóturnar sem sungið er uppúr eru mikill fjársjóður og geyma mikla sögu. Í þeim má finna kunn verk og týndar perlur, allt frá þjóðlögum til söngleikjalaga.
Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld og bóksali, kynnir verkin og fjallar um nóturnar. Aðgangur er ókeypis og öll eru þið velkomin á meðan húsrúm leyfir. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Síðari tónleikarnir verða 27. ágúst og þá koma fram Halla Marínósdóttir, mezzósópran og Birgir Stefánsson, tenór. Einar Bjartur leikur einnig með þeim á píanó.