Greiningardagur á Byggðasafni Árnesinga

Ljósmynd/Byggðasafn Árnesinga

Er allt gull sem glóir? Sunnudaginn 6. október býðst fólki að koma með gull- og silfurgripi úr einkaeigu til Byggðasafns Árnesinga þar sem sérfræðingar rýna í djásnin.

Greiningardagurinn verður haldinn kl. 14- 16 í fyrirlestrasal Varðveisluhúss byggðasafnsins á Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Þessi opni viðburður er sniðinn að fyrirmynd greiningardaga á Þjóðminjasafni Íslands sem hafa um árabil notið vinsælda.

Þeir sérfræðingar sem taka á móti fólki þennan dag verða Halla Bogadóttir, gullsmiður, Lilja Árnadóttir, fyrrum sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands, Bogi Karlsson, úrsmiður Ásgeir Reynisson, gullsmiður og Birgir D. Ingibergsson, gullsmíðanemi.

Greiningardagurinn er hluti af menningardagskránni Gullspor og sýning undir því nafni er í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka á Túngötu 59. Sýningin fjallar um handverk gull- og silfursmiða úr Árnessýslu. Frír aðgangur er á þá sýningu eins og á safnið allt í tilefni Menningarmánaðarins október í Árborg.

Hvatinn að Gullsporum kemur frá félagsmönnum Félags íslenskra gullsmiða sem fagna nú 100 ára afmæli og nýtur safnið góðs af samstarfi við félagið. Safnasjóður styrkir verkefnið.

Fyrri greinNý bók frá Ara Trausta um náttúruvá á Íslandi
Næsta greinLaugdælakonur hraðmótsmeistarar HSK í fjórða sinn