Héraðið, ný íslensk kvikmynd eftir leikstjórann Grím Hákonarson, verður frumsýnd miðvikudaginn 14. ágúst í bíóhúsum um allt land.
Grímur, sem ættaður er frá Vorsabæ í Flóa, leikstýrði m.a. hinni margverðlaunuðu kvikmynd Hrútar og heimildamyndunum Hvelli og Litlu Moskvu.
Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.
Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hlutverk Ingu í myndinni. Hún hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu og Föngum og í kvikmyndinni Þröstum en hún var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverkið í þeirri síðastnefndu.
Með önnur hlutverk í myndinni fara þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hinrik Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.
Héraðið var tekin upp á rjómabúinu Erpsstöðum í Dölum, á Hvammstanga og Blönduósi.
Myndin er íslensk-, dönsk-, þýsk-, og frönsk samframleiðsla en aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson hjá Netop Films, sem framleiddi bæði Hrúta og Undir trénu.
Hér er hægt að sjá stiklu myndarinnar: