Föstudaginn 1. júlí var opnuð sýning á ljósmyndum eftir Guðjón Róbert Ágústsson á Bókasafninu í Hveragerði.
Flestar myndirnar voru teknar á síðasta ári (2015) og sýna litskrúðugar myndir af steinum í íslenskri náttúru. Marglitar fléttur, skófir og mosar skreyta steinana og búa til alls konar myndir sem gaman er að skoða.
Róbert hefur unnið við ljósmyndun síðan í maí 1965 þegar hann hóf störf á ljósmyndadeild Dagblaðsins Tímans við prentmyndagerð og blaðaljósmyndun.
Hann vann á Tímanum og NT fram í júní 1984. Frá þeim tíma hefur hann unnið sjálfstætt sem ljósmyndari og blaðamaður. Róbert hefur búið í Hveragerði síðastliðin fjögur ár.
Sýningin verður opin um leið og safnið, mánudaga kl. 11-18:30, þriðjudaga-föstudaga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11–14 og stendur út júlí. Myndirnar eru allar til sölu á góðu verði.