Þessa dagana sýnir Guðmundur Erlingsson ljósmyndir í Bókasafninu í Hveragerði.
Guðmundur er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en hefur búið í Hveragerði frá 1994 og starfar hjá Kjörís.
Guðmundur hefur alltaf verið áhugasamur um ljósmyndun og jókst sá áhugi til muna með tilkomu stafrænnar tækni. Hveragerði og nágrenni hafa alltaf heillað hann sem myndefni og má oft sjá hann á ferðinni á bláa hjólinu sínu með Pentaxinn á bakinu, en vélina skilur hann sjaldan við sig.
Landslagsljósmyndun er hans helsta áhugasvið og á sýningunni, sem er sölusýning, eru eingöngu myndir tengdar Hveragerði og nágrenni. Myndirnar sem rúlla á skjáum eru af ýmsu tagi, m.a. af fólki og viðburðum.
Sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19, þriðjudaga til kl. 21 og laugardaga kl. 11-14 og stendur a.m.k. til mánaðamóta.