Guðrún Arndís Tryggvadóttir opnar sýninguna Umbreyting/Metamorphosis í Sundlaug Hafnar í Hornafirði að Víkurbraut 9 næstkomandi laugardag, þann 9. desember kl. 14:00 til 16:00. Sýningin mun standa til 25. ágúst 2024 og er opin á opnunartíma sundlaugarinnar.
Bakgrunnur Guðrúnar sem frumkvöðull á sviði umhverfisfræðslu og störf hennar sem landvörður, bæði í þjóðgarðinum á Þingvöllum og sem yfirlandvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, nánar tiltekið á Breiðamerkursandi og Jökulsárlóni nú í sumar, kemur vel fram í síðustu verkum hennar þar sem áhugi fyrir landinu og eðli hringrásar lífefna spilar stóran þátt í rannsóknar- og vinnsluaðferðum við gerð hinna stóru efniskenndu málverka.
Samkomustaðir nútímans
„Sundlaugar eru samkomustaðir nútímans og vatnið er Guðrúnu lífsnauðsynleg uppspretta hugmynda og endurnýjunar. Vatnið minnir okkur einnig á hverfulleikann og hinn dulda stórkostlega lífheim sem við erum hluti af. Við syndum frá fyrstu stundu, hina níu mánuði í móðurkviði og veran í vatninu er okkur því fullkomlega eðlileg,“ segir í tilkynningu frá Guðrúnu.
Guðrún syndir mikið sjálf, svo hugmyndin að því að sýna í sundlaugum er ekki tilkomin af engu. Í Sundhöll Selfoss hangir einmitt verk eftir Guðrúnu, sem hún gaf sveitarfélaginu Árborg nú fyrr á árinu. Í hinu sex fermetra stóra verki á sýningunni á Höfn tekur hún fyrir umbreytingar lífvera í tíma og hinn síbreytilega efnisheim sem umlykur okkur og við erum hluti af.
Stuðningur frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands gerði sýninguna mögulega.
Nánar um verk og feril Guðrúnar á tryggvadottir.com.