Guðrún Árný þeysist nú um landið til þess að æfa með kirkjukórum á þeim stöðum sem hún heldur jólatónleika í desember. Tónleikarnir á Suðurlandi verða í Þykkvabæjarkirkju, Víkurkirkju og Hafnarkirkju í Hornafirði.
Söngkonan gaf á dögunum út jólaplötuna Notaleg jólastund og fylgir hún henni eftir með níu tónleikum víðsvegar um landið.
„Nú er langþráður draumur loks að rætast. Fyrir jólatónleikana mína í fyrra langaði mig að fá lítinn kór og strengjakvartett. Fyrirfram var ég með ákveðnar vonir og væntingar, en hefði aldrei órað fyrir því að útkoman yrði þessi,“ segir Guðrún Árný um nýju plötuna.
„Undanfarin ár hef ég tekið upp jólatónleikana mína í Víðistaðakirkju, en ár eftir ár hef ég vilja gera örlítið betur, bæta við og laga og þannig má segja að þessi plata hafi verið nokkur ár í undirbúningi og vinnslu. Það var svo í janúar og febrúar í ár þegar ég fór að hlusta á upptökurnar frá því um jólin í fyrra að ég hugsaði, já, þetta er komið,“ bætir hún við.
Sérvalin lög og sálmar
Á plötunni eru þrettán jólalög og sálmar sem Guðrún Árný valdi sérstaklega og hún nálgast verkefnið af mikilli natni og virðingu við tónlistina.
„Þessi lög þýða öll eitthvað fyrir mig. Þetta eru lög sem ég og mjög mörg eru alin upp við. Lög frá Ellý Vilhjálms eru mér sérstaklega hugleikinn, svo er þarna fallegt lag sem bróðir minn samdi um jólhefðir fjölskyldunnar okkar þegar við vorum að alast upp, og lag sem ég samdi um sjálf um þennan dásamlega tíma sem er desember,“ bætir hún við.
Tónleikaferð Guðrúnar Árnýjar hefst í Þykkvabæjarkirkju þann 3. desember, daginn eftir verður hún í Víkurkirkju í Mýrdal og fimmtudaginn 5. desember á Höfn í Hornafirði. Í kjölfarið fylgja tónleikar á Egilsstöðum, Húsavík, Siglufirði, Akureyri og Hafnarfirði og síðustu tónleikarnir verða 18. desember á Ísafirði.