Sýningin Gullspor sem fjallar um handverk gull- og silfursmiða í Árnessýslu verður opnuð í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka klukkan 14, laugardaginn 7. september.
Þetta er lítil sýning sem þræðir sig um salarkynni safnsins þar sem fyrir er sýning um sjósókn. Strax í kjölfarið á sýningaropnun verður gestum boðið upp á sögugöngu um Eyrarbakka á slóðir þeirra smiða sem störfuðu í þorpinu. Ótrúlegur fjöldi gull- og silfursmiða starfaði í Árnessýslu á 19. og 20. öld. Samfélagsgerð þess tíma krafðist þess að fólk sinnti mörgum störfum samhliða. Gull -og silfursmíði var oftast unnin í hjáverkum af miklum hagleikssmiðum.
Að minnsta kosti átta gullsmiðir fæddir á 19. öld störfuðu um lengri eða skemmri tíma á Eyrarbakka á þessu blómaskeiði fagsins. Einhverjir lærðu af eldri smiðum eða tengdust fjölskylduböndum. Tveir þekktustu gull- og silfursmiðir á Eyrarbakka voru Ebenezer Guðmundsson (1844-1920) og Oddur Oddsson (1867-1938). Fjölmarga gripi eftir þá tvo er að finna í safneign Byggðasafns Árnesinga sem rekur Sjóminjasafnið. Sögugangan sem hefst við Sjóminjasafnið á opnunardegi leiðir gesti m.a. um heimahaga þeirra og tvinnar saman sögu gull -og silfursmiða við húsasöguna sem er vel varðveitt í sögulegri byggð Eyrarbakka.
Í október verður enn einn þáttur Gullspora í boði fyrir gesti þegar greiningardagur verður haldinn á Sjóminjasafninu. Sunnudaginn 6. október býðst fólki að koma með gull- og silfurgripi úr einkaeigu og sérfræðingar verða til taks til að rýna í djásnin. Þessi viðburður er sniðin af fyrirmynd greiningardaga á Þjóðminjasafni Íslands sem hafa um árabil notið mikillar vinsældar.
Hvatinn að Gullsporum kemur frá félagsmönnum Félags íslenskra gullsmiða sem fagna nú 100 ára afmæli og nýtur safnið góðs af samstarfi við félagið. Safnasjóður styrkir verkefnið.