Gyrðir, Þórarinn og fleiri lesa

Stórskáldin Gyrðir Elíasson og Þórarinn Eldjárn eru meðal þeirra sem koma fram á vikulegu upplestrarkvöldi í Bókakaffinu í bókabænum Selfossi í kvöld, fimmtudagskvöld.

Aðsóknarmet var slegið á síðasta upplestrarkvöldi þegar 70 manns hlýddu á lestur. Þetta er áttunda haustið sem Bókakaffið á Selfossi efnir til upplestra úr jólabókum.

Þórarinn Eldjárn les úr ljóðabók sinni Tautar og raular og Gyrðir Elíasson úr tveimur bókum sem báðar komu út í haust, smásagnasafninu Koparakur og prósakveri sem heitir Lungnafiskarnir.

Aðrir sem mæta til leiks eru: Þórður Helgason sem les úr bókinni 52 sonnettur, ástarsaga. Kristján Jóhann Jónsson les úr bók sinni um Grím Thomsen. Óskar Árni Óskarsson skáld og þýðandi les úr prósaljóðum Russel Edson sem komu út í íslenskri þýðingu undir heitinu Músin sem gelti á alheiminn. Jóna Guðbjörg Torfadóttir þýðandi les úr Orkneyskum þjóðsögum. Áslaug Agnarsdóttir þýðandi les úr bernskuverkum Tolstojs.

Kakó, kaffi og notaleg stemmning. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Húsið opnar kl. 20 og upplesturinn hefst kl. 20:30.

Fyrri greinRausnarleg gjöf til nýrrar göngudeildar
Næsta greinAndrés Arnalds: Hvar má aka?