Sýningin 987,9 hektóPasköl, einkasýning Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur í Gallerí Fold, verður formlega opnuð laugardaginn 26. október næstkomandi kl. 14.
„Hafið hefur sérkennilegt aðdráttarafl, það er ógnvekjandi og aðdáunarvert í senn,“ segir Hrafnhildur Inga um viðfangsefni verka sinna. Þau sýna oft sjólag og skýjafar sem birtist meðfram ströndum landsins þar sem himinn, haf og jörð renna saman á ofsafengin hátt.
Hrafnhildur sækir gjarna myndefnið á sínar heimaslóðir í Fljótshlíðinni þar sem suðurströnd landsins blasir við henni. Þar myndast oft á tíðum dularfullar skýjamyndanir á milli Eyjafjallajökuls og Þórsmerkur.
Byrjar oftast efst í hægra horninu
Hrafnhildur Inga vinnur ekki eftir ljósmyndum heldur verða þessi veðrabrigði til í huga hennar. „Ég veit yfirleitt ekki hvað ég ætla að gera þegar ég stend frammi fyrir nýjum striga á trönunum. Ég dreg engar línur og hef oftast ekkert myndefni í höfðinu. Byrja bara einhvers staðar með þeim lit sem fyrir mér verður, en oftast leita ég fyrst upp í hægra hornið,“ segir Hrafnhildur.
Margir telja að veðurfar hafi ekkert með landslag að gera. Hrafnhildi Ingu finnst það ekki sanngjarnt viðhorf. Himinn og haf hafa mikil áhrif á hvernig landið mótast og hefur áhrif á ásýnd þess hverju sinni. Ef til vill geymir það sköpunarkraft náttúrunnar í sinni tærustu mynd. Það er veðrið sem gerir landslagið að því sem það er.
Fjórða einkasýning Hrafnhildar Ingu
Sýning Hrafnhildar Ingu heitir 987,9 hektóPasköl (sem er mælieining á loftþrýsting) og er fjórða einkasýning Hrafnhildur Ingu í Gallerí Fold en hún hefur haldið fjölda annarra einkasýninga auk samsýninga og þátttöku í listamessum hér heima og erlendis.