Bókakaffið á Selfossi er 10 ára föstudaginn 7. október og verður þann dag slegið upp afmælisveislu frá 15-18. Klukkan 20 er svo menningardagskrá í boði Bókakaffisins og Uppbyggingasjóðs Suðurlands.
Í afmælisveislunni klukkan þrjú verður að sjálfsögðu afmæliskaffi í boði hússins. Auk þess mæta rithöfundar víðs vegar að og lesa upp, bóksalar bjóða upp kostagripi og sérstök afsláttarkjör verða á bæði nýjum og gömlum bókum.
Rithöfundarnir sem mæta eru Ásdís Thoroddsen, Óskar Árni Óskarsson, Hallgrímur Helgason, Pjetur Hafstein Lárusson, Guðmundur Brynjólfsson, Halldóra Thoroddsen, Guðrún Eva Mínervudóttir og Hermann Stefánsson. Þá les Heiðrún Ólafsdóttir rithöfundur og þýðandi upp úr nýútkomnu verki grænlenska höfundarins Sørine Steenholdt.
Um kvöldið kl. 20 er svo dagskráin Ljóðfæri. Þar koma fram feðgarnir Þórarinn Eldjárn, ljóðskáld og rithöfundur, og Halldór Eldjárn, tónlistarmaður og tölvufræðingur. Þeir gramsa ljóða- og hljóðasörpum sínum, spinna og tvinna, með hjálp ritvéla-, hljómborða og lyklaborða. Einnig koma við sögu segulbönd, hljóðgervlar, bækur, fetlar, blöð, hristur, burstar, snerill og blýantur. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands og aðgangur ókeypis.