Haldið upp á 70 ára afmæli Skógasafns

Í ár eru liðin 70 ár frá stofnun Skógasafns og Héraðsskólans í Skógum. Þessum merku tímamótum verður fagnað sunnudaginn 15. september næstkomandi í Skógaskóla klukkan 15:00.

Skógasafn er á meðal elstu byggðasafna landsins og telur safnkosturinn nú um 18 þúsund muni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun setja hátíðina en meðal þeirra sem flytja ávörp eru Ingvar P. Guðbjörnsson, formaður stjórnar Skógasafns, Andri Guðmundsson, forstöðumaður Skógasafns og Þórður Tómasson fyrrum safnstjóri Skógasafns.

Sigurður Ingi mun svo opna nýja sýningu um 70 ára sögu Skógasafns og Skógaskóla í Samgöngusafninu.

Um tónlistarflutning sjá sönghópurinn Öðlingar og Valborg Ólafsdóttir. Kaffiveitingar verða í Skógakaffi og Fornbílaklúbbur Íslands verður með fornbíla til sýnis.

Fyrri greinBlæösp í Hvammi tré ársins í Hrunamannahreppi
Næsta greinVíkurskóli tekur þátt í Erasmus+ samstarfinu