Halldór Einarsson í ljósi samtímans

Listasafn Árnesinga.

Þann 17. ágúst verður opnuð í Listasafni Árnesinga sýning á verkum Halldórs Einarssonar og þau sett í samhengi við verk listamanna síðari kynslóðar.

Verk Halldórs er stór hluti af safnkosti safnsins en hann afhenti safninu æviverk sitt árið 1974 til varðveislu.

Halldór nam myndskurð hjá Stefáni Eiríkssyni á árunum 1916-1920 en fluttist að því loknu til Vesturheims þar sem hann bjó og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Ytra lærði hann líka að höggva í marmara og stein og hann sinnti alla tíð myndskurði í frístundum.

Halldór var sömu kynslóðar og brautryðjendur íslenskrar nútímamyndlistar. Að baki verka hans liggja ólíkar hugmyndir, í sumum þeirra birtist söknuður útflytjandans, sem horfir til baka á sögueyjuna, en í öðrum eru áhrif af táknfræði ólíkra menningarheima. Í verkunum má einnig sjá dulspeki líkt og í verkum Einars Jónssonar sem Halldór dáði og Halldór var hugmyndaríkur við túlkun allskonar táknmáls í tré og fór stundum ótroðnar slóðir.

Sýningin er sett upp til þess að kynna Halldór Einarsson, verk hans og þátt í sögu Listasafns Árnesinga. Hún er einnig sett upp í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands en á þeim tíma, 1916-1920, var Halldór við nám í myndskurði.

Verk Halldórs eru flest unnin í tré og á sýningunni er leitast við að setja þau í samhengi við verk listamanna síðari kynslóðar, út frá mismunandi tilvísunum. Það eru verk eftir Önnu Hallin sem líkt og Halldór flutti frá sínu heimalandi og skapar á nýjum stað. Verk eftir Birgi Snæbjörn Birgisson sem líkt og annað verk eftir Halldór er með pólitíska skírskotun til alþingismanna. Verk eftir Guðjón Ketilsson sem líkt og Halldór vinnur einkum í tré og er líka með tilvísun í húsgagnaframleiðslu og verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem vísa til náttúrunnar, en síðustu ár sín í Bandaríkjunum bjó Halldór sem einsetumaður úti í skógi. Listaverk allra listamannanna fela í sér sýnilegt handverk af ólíkum toga.

Sýningarstjóri er Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur.

Safnið er opið alla daga frá kl. 12-18 og sýningin verður opin til 21. október.

Fyrri greinKynningarfundur á Hvolsvelli
Næsta greinÖlfusárbrú opnuð á morgun