Hallur Karl málar vígása í Reykholti

Um þessar mundir er myndlistarmaðurinn Hallur Karl Hinriksson, frá Selfossi, að störfum í Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði.

Þar er Hallur Karl að mála vígásana sem fyrirhugað er að verði í anddyri sýningarinnar um Snorra Sturluson, sem opnuð verður í sumar í Reykholti.

Vígásarnir eru að taka á sig mikið líf í höndum listamannsins og hafa glatt geskomandi ferðamenn sem geta fylgst með Halli að störfum í sýningarsalnum.

Við verkið notast Hallur Karl við fornbúna liti sem hafa verið framleiddir í sömu verksmiðju um margra alda skeið.

Margir fylgdust með norska útskurðameistaranum Biarte Aarseth við tréskurðinn á vígásunum í fyrra, en Sigríður Kristinsdóttir teiknaði þá upp. Og nú er enn meira fjör að færast í leikinn, er ásarnir lifna við í höndum Halls Karls, meistara litanna úr Flóanum, í fullu samræmi við þær litríku miðaldir sem þekktar eru frá Snorra Sturlusyni í Reykholti.

Fyrri greinKynningarfundur um Key Habits
Næsta greinTvö hringtorg breyta aðkomu að Reykholti