Jónas Sigurðsson heldur tónleika í Hveragerðiskirkju í kvöld kl. 20 ásamt Ritvélum framtíðarinnar. Jónas og Ritvélarnar eiga vinsælasta lagið á landinu í dag.
„Það er ekki hægt að segja annað en að það sé góð stemmning og tilhlökkun í hópnum fyrir tónleikana,“ segir Jónas í samtali við Sunnlenska.
„Síðast spilaði bandið á tónleikum í kringum Bræðsluhátíðina og þar skapaðist ótrúlega góð stemmning og hamingja í fólki. Við vonumst auðvitað eftir að sömu töfrar muni leysast úr læðingi í Hveragerðiskirkju. Það er mjög sterk upplifun að sjá svona kröftuga tónlist með sterkum boðskap flutta af átta manna hljómsveit. Vonandi eiga sem flestir eftir að upplifa það í kvöld,“ segir Jónas.
Ný plata er væntanleg frá Jónasi og fyrsta lagið af plötunni, Hamingjan er hér, situr nú á toppi vinsældarlista Rásar 2. „Það var bara meiriháttar ánægjulegt fyrir okkur öll sem stöndum að þessu,“ segir Jónas og bætir við hversu ánægður hann sé með Ritvélar framtíðarinnar. „Þar á meðal er hin frábæra Kristjana Stefánsdóttir sem á stórkostlega spretti í laginu.“
Nýja platan, Allt er eitthvað, mun koma út þann 1. október nk.