Harðkjarna hrútavinir í kútmagaveislu

Öldungaráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi hélt kútmagaveislu í Menningarverstöðinni á Stokkseyri um síðustu helgi.

Samkoman var að mestu lokuð og þar mætti harðasti kjarni Öldungaráðsins ásamt nokkrum gestum. Veislan var mjög vel heppnuð og er undanfari frekari kútmaga mannlífs- og menningarstarfs. Ákveðið var að vera með stóra opna kútmagaveislu næsta vetur.

Bjarkar Snorrason í Brattsholti á Stokkseyri las ljóð eftir Björgvin Sigurðsson á Jaðri í aldarminningu hans. Súgfirðingurinn Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson á Stokkseyri sagði gamansögur af Þórði á Dagverðará.

Happdrætti var þar sem vinningarnir voru Basil fursti 2. hefti – Ævintýri í næturklúbbi – sem var að koma út hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri.

Þá var fagnað 2. og 3. tbl. Séð og jarmað góu og einmánaðarblaði sem kom út þann 30. mars. Ritið er myndríkt sem aldrei fyrr og eru 204 myndir af lífi og leikjum Hrútavina með rætur syðra sem vestra.

Fyrri greinFerðumst örugglega um páskana
Næsta greinMilljónamiði í Bjarnabúð