Háskólalest Háskóla Íslands leggur af stað á ný og býður upp á námskeið fyrir grunnskólanema og vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna á Kirkjubæjarklaustri í dag og á morgun.
Háskólalestin ferðaðist um landið í fyrra, á aldarafmæli Háskóla Íslands, og var tekið með kostum og kynjum á þeim fjölmörgu stöðum vítt og breitt um landið sem sóttir voru heim. Leikurinn verður endurtekinn í ár og verður lestin á ferðinni í maí með fjör og fræði fyrir alla.
Fyrsti áfangastaður lestarinnar er Kirkjubæjarklaustur í dag og á morgun. Í dag sækja nemendur úr Víkurskóla og Kirkjubæjarskóla fjölbreytt námskeið í Háskóla unga fólksins en á morgun verður litrík vísindaveisla fyrir alla aldurshópa.
Vísindaveislan verður haldin í félagsheimilinu Kirkjuhvoli og Íþróttahúsi grunnskólans kl. 12 til 16. Þar verður margt í boði: stjörnutjald, sýnitilraunir, eldorgel, tæki og tól, japönsk menning, jarðvísindi, þrautir og leikir. Auk þess verður Sprengjugengið landsfræga með tvær sýningar í Kirkjuhvoli, kl. 12:30 og 14:30.
Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!