Jólatónleikarnir Hátíð í bæ fara fram miðvikudaginn 7. desember nk. í fimmta sinn og er miðasala hafin á midi.is.
Að vanda verða tónleikarnir í íþróttahúsinu Iðu.
„Flytjendur að þessu sinni eru Strengjasveit barna úr Tónlistarskóla Árnesinga, þríeykið Jóhanna Ómarsdóttir, Karítas Davíðsdóttir og Daníel Haukur Arnarson sem sló rækilega í gegn á síðustu tónleikum, allt ungt og efnilegt söngfólk úr héraði,“ segir Kjartan Björnsson, tónleikahaldari.
„Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú verður með okkur líkt og frá upphafi, Pálmi Gunnarsson, Rangæingurinn Maríanna Másdóttir, kór Fjölbrautarskóla Suðurlands undir stjórn Stefáns Þorleifssonar og hinn magnaði Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari sem er sunnlenskur að uppruna og Jórukórinn undir stjórn Helenu Káradóttur og ónefnt er árvisst leyniatriði,“ segir Kjartan ennfremur.
Tónlistarumsjón er í höndum Vignis Þórs Stefánssonar og kynnir er Hrunamaðurinn sr. Eiríkur Jóhannsson á jólatónleikunum.
Allar konur á suðurlandi fæddar 1941 fá ókeypis aðgang og allir sem kaupa miða á tónleikana fá sértilboð í mat og gistingu á Hótel Selfossi þetta kvöld, auk þess nokkrir málsverðir í hótelinu dregnir út á tónleikunum.
Verð á tónleikana er óbreytt frá því í fyrra og er salan hafin á midi.is og á Rakarastofu Björns og Kjartans Selfossi.