Sunnlensku jólatónleikarnir Hátíð í bæ fara fram í sjötta sinn miðvikudaginn 5. desember nk. í Iðu íþróttahúsi á Selfossi líkt og verið hefur frá upphafi.
Fram koma að þessu sinni bland sunnlenskra listamanna auk landsþekktra og er blandan góð. Hótel Selfoss mun bjóða gistingu á úrvalsverði fyrir þá sem vilja gera meira úr ferðinni og veitingastaðir á Selfossi munu bjóða gesti velkomna. Kynnir verður sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson og Guðmundur Eiríksson hefur umsjón með píanóundirleik.
Fram koma barna og unglingakórar Selfosskirkju undir stjórn Edith Molnar, stórdívan Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir sem verið hefur með frá byrjun, Rangæingurinn Herdís Rútsdóttir, Kristín Þóra Albertsdóttir úr Flóanum, Ölfusingurinn Daníel Haukur Arnarson, Lúðrasveit Þorlákshafnar undir stjórn Robert Darling, Selfyssingurinn Gunnar Guðni Harðarsson syngur og leikur einnig á fiðlu, Páll Óskar Hjálmtýsson, Valdimar Guðmundsson og Gissur Páll Gissurarson auk leyniatriðis af bestu gerð.
Forsala hefst í dag á midi.is og á Rakarastofu Björns og Kjartans í Miðgarði Selfossi.