Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka sunnudaginn 9. ágúst kl. 14.
Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir. Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir.
Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.
Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt eru á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins.
Húsið stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.