Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju

Skálholtsdómkirkja.

Hátíðartónleikar verða haldnir í Skálholtsdómkirkju í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslendinga og upphafs aðventu, laugardaginn 1. desember kl. 16:00.

Flutt verður fjölbreytta tónlist sem tengist á einhvern hátt tilefninu og kemur tónleikagestum einnig í rétta stemmningu fyrir komandi aðventu og jól svo ekki sé minnst á þessi merku tímamót okkar Íslendinga. Fram koma Kirkjukórar Breiðabólstaðarprestakalls ásamt söngfólki úr Landeyjum, Kirkjukórar Stóra-Núps og Ólafsvallakirkna, Skálholtskórinn, Karlakór Selfoss og Öðlingarnir. Kórarnir mynda hátt í 100 manna blandaðan kór og einnig 100 manna karlakór.

Einsöngvari á tónleikunum er Oddur Arnþór Jónsson bassi. Jóhann I. Stefánsson leikur á trompet og Matthías Nardeau leikur á Óbó. Orgel og píanó meðleik annast Jón Bjarnason og Guðjón Halldór Óskarsson. Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti flytur ávarp og stjórnendur eru Guðjón Halldór Óskarsson, Jón Bjarnason og Þorbjörg Jóhannsdóttir.

Miðaverð er 2.500 krónur en frítt er inn fyrir börn yngri en 12 ára, öryrkja og eldri borgara.

Fyrri greinGert ráð fyrir rúmlega 500 milljóna króna rekstrarafgangi
Næsta greinFögnum saman 100 ára fullveldi!