Haustgildi um helgina

Lay Low verður tónleika í Stokkseyrarkirkju nk. laugardagskvöld. Ljósmynd/Aðsend

Uppskeruhátíðin Haustgildi, menning er matarkista, verður haldin í fjórða sinn á Stokkseyri um næstu helgi, 7.-8. september. Á sama tíma verður haldið upp tíu ára afmæli Bókabæjanna austanfjalls.

„Haustgildi er uppskeruhátíð í víðri merkingu sem fagnar hausti og uppskeru með það að markmiði að tvinna saman menningarviðburði og markað í fjölskylduvæna upplifun við ströndina. Menning er nefnilega matarkista,“ segir Pétur Már Guðmundsson, einn af aðstandendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Innileg stund í kirkjunni
Í ár mun söngkonan Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, betur þekkt sem Lay Low, verða með tónleika í Stokkseyrarkirkju laugardagskvöldið 7. september kl. 20-21.30. „Hefð hefur skapast fyrir tónleikum í Stokkseyrarkirkju á laugardagskvöldi Haustgildis og er það vel. Ljúka annasömum degi á innilegri stund. Miðasala er á tix.is,“ segir Pétur.

„Hún er þó vissulega ekki eini tónlistarmaðurinn sem kemur fram á hátíðinni. Íslandskór frá Hollandi heldur tónleika á laugardaginn kl. 17-18 en þá verður kontrabassaleikarinn Freysteinn Gíslason og hljómsveit nýbúinn að spila í Orgelmsiðjunni og Kira Kira að spila með Hilmari Jenssyni gítarleikara. Ingibjörg Elsa Turchi og Hróðmar Sigurðsson spila svo á sunnudeginum á Brimrót kl. 16 – 17 eftir að Sverrir Norland hefur heillað áheyrendur í Orgelsmiðjunni kl. 15.“

Fjölbreytt dagskrá fyrir allan aldur
„Haustgildi á náttúrulega heima á Stokkseyri. Það er líka gleðilegur og fastur hluti af Haustgildi að gallerí hafa opið, Skálinn á Stokkseyri er opinn og býður upp á girnileg tilboð. Veiðisafnið hefur opið og býður frítt inn fyrir 12 ára og yngri. Einnig er hægt að fara á kayak hjá Kayakferðum.“

Á Haustgildi verða einnig ýmsir framleiðendur og gestir geta kynnt sér fjölmargt sem verður á boðstólnum. „Allir ættu að geta fundið eitthvað til að væta kverkarnar eða gott að borða, fallegt handverk líka. Sem dæmi um framleiðendur má þar nefna bjór frá Smiðjunni, rabarbara freyðivín frá Vínkeldunni, pylsur og salami frá Tariello, kartöflur vissulega, rófur og grænmeti líka. Frekari upplýsingar um þátttakendur er að finna á vefsíðunni haustgildi.is.“

Upplestrar víðsvegar um Stokkseyri
Sem fyrr segir eiga Bókabæirnir austanfjalls tíu ára afmæli og af því tilefni verður sérstök áhersla lögð á rithöfunda og bókamarkað. „Gestir geta þrætt upplestra á laugardaginn og sunnudaginn, víðsvegar um Stokkseyri og staðsetningar og upplýsingar um upplestrana er að finna á heimasíðu Haustgildis.“

„Einnig verður boðið upp á ritsmiðju á Draugabarnum fyrir krakka á aldrinum 10-16 ára. Meðal þeirra sem lesa upp eru Hildur Knútsdóttir, Emil Hjörvar Petersen, Gunnar Theodór Eggertsson, Bjarni Snæbjörnsson, Ingileif Friðriksdóttir, Shaun Bythell, Ragnhildur Þrastardóttir, Guðrún Jónína Magnúsdóttir og Ragnheiður Gestsdóttir.“

Skoski rithöfundurinn og bóksalinn Shaun Bythell. Ljósmynd/Aðsend

Þess má geta að Shaun Bythell er skoskur höfundur og bóksali og verður sérstakur gestur afmælis Bókabæjanna austanfjalls. „Shaun er höfundur Dagbókar bóksala sem hefur komið út hjá bókaútgáfunni Uglu. Þriðja bókin í seríunni um bóksalan geðþekka verður einmitt gefin út um svipað leyti og sjálfsagt væri hægt að fá Shaun til að árita nýjar bækur sem verða til sölu á bókamarkaðnum á Brimrót. Svo hlökkum við aðstendur innilega til að sjá ykkur á Haustgildi og tíu ára afmæli Bókabæjanna austanfjalls á Stokkseyri,“ segir Pétur að lokum.

Fyrri greinJöfnunarmark á lokasekúndunni
Næsta greinInga Dís framlengir við Selfoss