Horfir þú á RuPaul’s Drag Race? Við líka, og það er ótrúlega gaman að fylgjast með raunveruleikaþætti um drag, en það ekki nærri því eins gaman og að sjá drag LIVE í eigin persónu. Og nú er tækifærið til þess, því dragsýningin Heart Attack er að koma á Selfoss!
Drag “fjölskyldan” House of Heart hefur slegið í gegn með mánaðarlegum drag sýningum á skemmtistaðnum Kiki í Reykjavík síðasta árið. Það er svo sannarlega kominn tími á að hópurinn nái heimsyfirráðum og hann byrjar að sjálfsögðu á Selfossi þar sem hann setur upp sýninguna Heart Attack föstudaginn 23. júní kl. 21.
„Við ætlum að sýna ykkur hvernig alvöru dragsýning fer fram og lofum glitrandi, ofurhýrri skemmtun fullri af skemmtilegri tónlist og kjánaskap! Drag “fjölskyldan” samanstendur af skrautlegum karakterum sem þið fáið að kynnast í gegnum glimmer, grín og gleði,“ segir í tilkynningu frá House of Heart.
Lola von Heart er ættmóðir fjölskyldunnar sem skilur eftir sig slóð af brotnum hjörtum, Chardonnay Bublée er mamma þín á Tene, Milo de Mix elskar pabbabrandara, og Úlla la Delish er kannski “dóttirin” en samt með lengstu lappirnar í hópnum. Úlla er líka uppalin á Selfossi og ekkert smá spennt að koma í heimsókn í besta bæ í heimi með þetta flotta show!
Gestir eru hvattir til að mæta í litríkustu sparifötunum og vera fabjúlöss. Forsala fer fram á heimasíðu Sviðsins og á tix.is og mælt er með því að tryggja sér miða fyrirfram.