„Héðan hefur komið mikið af flottu tónlistarfólki“

Inga Margrét Jónsdóttir á tónlistarbekk Kristjönu Stefánsdóttur í Ártúninu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sex Tónlistarbekkir hafa verið settir upp við helstu gönguleiðir í sveitarfélaginu Árborg. Tónlistarbekkir er verkefni sem þróað er af Selfyssingnum Ingu Margréti Jónsdóttur, viðskiptafræðingi og menningarstjóra.

„Ég var að klára mastersnámið mitt í menningarstjórnun og langaði að hafa lokaverkefnið mitt tengt áhugasviði mínu, sem er tónlist. Ég hef verið að vinna aðeins í stjórnsýslunni þannig að ég hugsaði mér að það væri gaman að gera einhverskonar menningartengt verkefni fyrir Árborg. Þá datt mér í hug að nýta þessa flottu og fjölbreytilegu tónlistarsögu sem er hérna á svæðinu og gera hana aðeins sýnilegri. Það þróaðist út í þessa tónlistarbekki,“ segir Inga Margrét í samtali við sunnlenska.is.

Við Fjöruborðið má finna bekk Kiriyama Family. Ljósmynd/Inga Margrét Jónsdóttir

Alveg hægt að taka aðra rispu
Bekkirnir eru sem fyrr segir sex talsins og er hægt að finna þá á gönguleiðakortinu á vef Árborgar. Í Ártúninu er bekkur Kristjönu Stefánsdóttur, Steini spil er við Árveginn, Mánar í Tryggvagarði og Skítamórall við mathöllina í miðbænum. Við Merkigil á Eyrarbakka er bekkur Benny Crespo’s Gang og á Stokkseyri við Fjöruborðið má finna bekk Kiriyama Family.

„Ég sé alveg fyrir mér að geta fjölgað bekkjunum í framhaldinu. Ég hef mjög gaman af tónlistarsögu og svæðið hérna er þekkt fyrir góða og skemmtilega sveitaballamenningu og héðan hefur komið mikið af flottu tónlistarfólk. Ég viðurkenni að það var alveg smá valkvíði þegar ég var að fara í gegnum söguna. Það væri alveg hægt að taka aðra rispu hér og þess vegna hægt að halda áfram með þetta í öðrum landshlutum,“ segir Inga Margrét ennfremur.

Þakklát fyrir samstarfið við Árborg
Verkefnið hefur verið í vinnslu í um það bil eitt og hálft ár og segir Inga Margrét að samstarfið við sveitarfélagið hafi verið mjög gott.

„Já, heldur betur. Tónlistarbekkirnir hefðu ekki getað orðið til án sveitarfélagsins og ég er mjög þakklát fyrir samstarfið. Ég vann töluverða rannsóknarvinnu í upphafi og sótti síðan um styrk hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem ég fékk og vissi þá að þetta gæti orðið að veruleika. Hér á Selfossi hefur verið mikil uppbygging í sambandi við miðbæinn og okkur langaði til þess að þetta yrði tilbúið á svipuðum tíma. Þetta er fullkomin tímasetning núna – sumarið komið og allir tilbúnir að fara út að hjóla eða ganga á milli bekkja,“ segir Inga Margrét að lokum.

Skiltin á bekkjunum eru gagnvirk en með því að skanna QR-kóða með síma opnast frekari upplýsingar um tónlistarmennina ásamt lagalista af Spotify. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

#tonlistarbekkir á Instagram
Skiltin á bekkjunum eru gagnvirk en með því að skanna QR-kóða með síma opnast frekari upplýsingar um tónlistarmennina ásamt lagalista af Spotify. Þá er einnig hægt að finna Tónlistarbekkina á Instagram þar sem Inga Margrét ætlar að setja inn myndir og myndbönd ásamt fróðleik og fólk er hvatt til að nota myllumerkið #tonlistarbekkir ef það fær sér sæti og tekur myndir á bekkjunum.

Fyrri greinBoðinn velkominn í hamingjuna
Næsta greinFrábært að geta haldið þetta mót á Selfossi