Hver sá sem hefur komið á Bókasafn Árborgar á Selfossi hefur eflaust rekið í augun í fallega skreytta veggi safnsins með einstökum klippimyndum.
Heiðurinn af skreytingunum á listakonan Rakel Sif Ragnarsdóttir sem einnig starfar á bókasafninu.
Vakti strax mikla lukku
„Í sumarlestrinum er ákveðið þema hvert ár og er þá reynt að gera einhverskonar tilbreytingu, tengt þemanu. Árið 2014 var ákveðið að hafa Múmín-þema en var þá ekkert til, tengt því þema, til þess að skreyta veggina með en það var til fullt af pappír. Þannig kviknaði sú hugmynd að nýta pappírinn til þess að búa til skreytingar sem hentuðu þemanu,“ segir Rakel í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta vakti svo mikla lukku að ég gerði líka klippimyndir fyrir jólagluggann sama ár. Síðan þá hef ég gert nýjar klippimyndir fyrir sumarlesturinn, halloween og jólin á hverju ári,“ segir Rakel sem hefur unnið á bókasafninu síðan sumarið 2005.
Skreytir fleira en bara bókasafnið
En það eru ekki bara klippimyndir sem Rakel gerir. „Ég hef líka verið að saga út og mála einhverskonar leikmyndir til skreytingar á bókasafninu. Það byrjaði reyndar á því að ég bjó til skreytingar fyrir Sumar á Selfossi, fyrir götuna sem ég bjó í og fyrir kjötsúpuhátíðina á Hvolsvelli og bæti ég við einu dýri á ári á þá hátíð.“
„Fyrir bókasafnið byrjaði ég að saga út í við fyrir jólagluggann 2018. Ég hef að auki verið að skreyta með ýmsum leikmunum sem ég hef sjálf sankað að mér og kem gjarnan með að heiman. Í sumar gerði ég til að mynda upp gamalt hjól, pússaði af því ryð og spreyjaði rautt. Það gegndi hlutverki hjólsins hennar Lottu í sumarglugga bókasafnsins.“
Rakel segir að í grunninn sé hún þó listmálari. „Ég hef haldið nokkrar sýningar með verkum mínum og held út Facebooksíðunni RSR ART. Instagram síðan er í bígerð.“
Gríðarlega góð viðbrögð
Viðbrögðin við skreytingum Rakelar á bókasafninu hafa ekki látið á sér standa. „Ég hef fengið gríðarlega góð viðbrögð. Ég hef fengið tilboð frá utanaðkomandi aðilum þar sem ég hef verið beðin um að taka þátt í uppsetningum eða stíliseringu eingöngu vegna kynna þeirra á skreytingum mínum á bókasafninu. Ég tók til að mynda þátt í uppsetningunni á Skyrlandi í Gamla Mjólkurbúinu svo eitthvað sé nefnt.“
„Mér finnst mikilvægt að það sé jákvæð upplifun að koma á bókasafnið, fólki finnist gaman að koma og sjá eitthvað nýtt. Mér finnst mikilvægt að börnin upplifi einhverskonar töfraheim í þægilegu og notalegu umhverfi.“
„Mér finnst fólk þó mega vera duglegra að heimsækja safnið, skoða sig um og sjá hvað við erum að gera hverju sinni. Það væri gaman að sjá fleiri njóta afraksturs vinnunnar.“
Myndirnar fá framhaldslíf í skólum
Myndirnar taka mislangan tíma eftir því hversu flóknar þær eru. „Eftir að það er búið að ákveða þema fer ég og skoða allt tengt þemanu og byrja á að skissa upp rýmið og mögulega uppsetningar út frá því hvað ég vil hafa á veggjunum. Síðan vel ég litaþema. Þegar efniviðurinn er komin teikna ég allt upp áður en ég klippi út og sker, á milli þess sem ég sinni afgreiðslunni og stýri barnadeildinni. Oft teygir þetta sig þó út í frítímann, enda hef ég mikinn metnað fyrir því að gera þetta vel og safnið sem flottast.“
En hvað verður um klippimyndirnar þegar þemanu er lokið? „Fyrstu árin geymdum við myndirnar en listaverk úr pappír geymast ekki endilega vel. Þar sem við höfðum lítið endurnýtt af því sem við vorum að geyma þá ákváðum við, fyrir um tveimur árum, að bjóða skólum og leikskólum að nýta þær myndir sem enn voru heilar. Þannig hafa þær fengið framhaldslíf og náð að gleðja fleiri börn. Við höfum þegar fengið tvær beiðnir um myndirnar sem hanga uppi í barnadeildinni núna.“
Er með þemað á heilanum í hálft ár
Aðspurð segir Rakel að hún sæki innblástur í þemað. „Við byrjum að ákveða og undirbúa þema sumarlestursins í byrjun árs. Þá byrja ég strax að skoða allt tengt þemanu, fæ það í rauninni á heilann í hálft ár. Mér finnst líka ofboðslega gott að ræða hugmyndir mínar við samstarfskonu mína, Esther Erlu, það kemur alltaf eitthvað gott hugmyndaflæði út úr því samstarfi.“
Eins og með flesta listamenn þá hefur Rakel verið að skapa síðan hún var krakki. „Ég hef málað frá því ég man eftir mér og hef alltaf haft gríðarlega þörf til þess að skapa. Foreldrar mínir eru enn með vatnslitamynd sem ég málaði í 6. bekk upp á vegg hjá sér, sem ég er enn mjög ánægð með.“
„Mér þykir gott að geta framkvæmt hugmyndirnar mínar sjálf en hugurinn á það þó til að fara aðeins á undan mér. Mig langar oftast að gera mun meira en tími gefst til.“
Myrkradagar að hefjast
„Þessa stundina er ég á fullu við að undirbúa myrkradaga á bókasafninu sem hefjast næstkomandi fimmtudag, 14. október. Þar erum við að skapa skemmtilega stemningu sem vert er að kíkja á. Við munum opna myrkradagana með bíói í bókasafninu klukkan 14 á fimmtudaginn en þá sýnum við fjölskyldumyndina Casper. Það er því tilvalið fyrir foreldra að gera sér dagamun í vetrarfríinu og kíkja með krakkana á bókasafnið. Ég vil hvetja alla til að koma við á bókasafninu, skoða sig um og drekka í sig stemninguna,“ segir Rakel að lokum.