Opið hús verður að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka þar sem Byggðasafn Árnesinga er með alla sína innri starfsemi sunnudaginn 23. október kl. 14-17.
Starfsmenn safnsins verða með leiðsögn og jafnframt verður gamall og heillandi skólaskápur kynntur sérstaklega í tilefni 170 ára afmælis Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Á opnu húsi viljum við beina sérstakri athygli að heillandi skólaskáp fullum af gömlum náttúrugripum. Peter Nielsen, verslunarstjóri á Eyrarbakka, gaf barnaskólanum í þorpinu náttúrugripasafn sitt árið 1924. Skólinn fékk Eirík Guðmundsson smið á Eyrarbakka til að smíða stóran og mikinn skáp um safnið. Skápurinn hefur átt mörg líf en var falinn Byggðasafni Árnesinga til varðveislu árið 2017.
Sex þúsund munir í varðveisluhúsi
Varðveisluhús safnsins var tekið í notkun haustið 2021 og þar eru varðveittir um 6.000 safnmunir frá allri Árnessýslu og nær 7.000 ljósmyndir. Byggingin er hólfuð niður í ólík varðveislurými til að búa til kjöraðstæður fyrir ólíka gripi.
„Eitt mikilvægasta verkefni safnsins er varðveisla. Allir safngripir hvort sem þeir eru á sýningu eða staðsettir í varðveisluhúsi geyma í sér minni samfélagsins um menningararfleið þess. Þannig er það stórt hlutverk safns að skrá og varðveita safngripi og bæði miðla í gegnum gagnagrunn og veita tryggt aðgengi að þeim. Aðstaðan á Búðarstíg er í alla staði glæsileg og er óhætt að fullyrða að framtíð safnmuna Árnessýslu er vel tryggð,“ segir í tilkynningu frá safninu.