Helga Gísladóttir frá Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi hefur verið rangnefnd í sögubókum framan af og fékk ekki tilskylda athygli og virðingu fyrir afrek sín.
Helga var ræktandi „Helgu“ kartaflanna sem var þriðja kartöfluyrkið á Íslandi til að komast í úrvalsflokk.
Sviðslistahópurinn CGFC vildi gera Helgu hátt undir höfði fyrir ævistarf sitt og því málaði einn meðlima hópsins, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, olíumálverk af Helgu, út frá ljósmynd af henni.
Myndin prýðir nú veggi landbúnaðarráðuneytisins en hún var afhent ráðherra hátíðlega athöfn í gær. Viðstödd voru afkomendur Helgu, fulltrúar frá kartöflusetrinu, fulltrúi Helgu ræktenda, lúðrasveitin “I’ve found a friend”, Halldór Eldjárn og listamennirnir Hallveig Kristín og Arnar Geir og fulltrúar landbúnaðarráðuneytis.
Gjörðin er hluti af ferðalagi CGFC sem frumsýnir verkið “Kartöflur” á nýju sviði á þriðju hæð Borgarleikhússins, smælki, næstkomandi fimmtudag, þann 24. október. Verkið er byggt út frá rannsóknarferðalagi um kartöflur á Íslandi og fólkið sem varð á vegi hópsins í rannsókninni.