Á næstu tónleikum tónlistarhátíðarinnar Englar og menn í Strandarkirkju koma fram Margrét Hannesdóttir sópran og Aðalsteinn Már Ólafsson baritón og með þeim leikur Sólborg Valdemarsdóttir á píanó.
Þessi árlega hátíð hófst síðastliðinn sunnudag en boðið verður upp á sex tónleika í sumar og hefjast þeir allir kl. 14:00 á sunnudögum.
Helgur hljómur er yfirskrift tónleikanna næsta sunnudag en þau Margrét og Aðalsteinn munu flytja sönglög og dúetta eftir Pál Ísólfsson Bjarna Þorsteinsson, Sigvalda Kaldalóns, Eyþór Stefánsson, Stradella, Mozart, Durante, Faure o.fl. Það er gaman að geta þess að Margrét er dóttir Hannesar Baldurssonar fyrrverandi organista í Strandarkirkju og Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands.
Englar og menn verður alla sunnudaga í júlí og er nú haldin í fimmta sinn. Hátíðin í ár er glæsileg sönghátíð líkt og á undanfarin ár, þar sem fram koma margir fremstu söngvarra og hljóðfæraleikara landsins ásamt ungum og upprennandi söngvurum. Á hátíðinni ár verða einnig heiðursgestir frá Englandi sem tengja keltneska þjóðlagaarfinn við hinn íslenska.
Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og er í takt við anda og sögu staðarins.