Henti hangikjötinu út um gluggann

Unnur Birna Björnsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Unnur Birna Bassadóttir í Hveragerði svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er orðinn ansi mikill jólaálfur. Eða kannski meira wannabe jólaálfur, sem vill rosalega mikið undirbúa snemma, en alltaf er of snemmt að skreyta þar til allt i einu er kominn desember og þá er bara komin tónlistarvinnujólatörn og enginn tími til neins!

Uppáhalds jólasveinn? Hurðaskellir er minn uppáhalds. Ég var aðeins að vinna með hann þegar ég var unglingur. 

Uppáhalds jólalag? Uppáhalds jólalagið mitt er ekkert eitt, ég elska jóladjassplötur Ellu Fitz, Bing Crosby og svo Carpenters-jólaplöturnar. 

Uppáhalds jólamynd? Jólin koma ekki nema maður horfi að minnsta kosti einu sinni á Love Actually

Uppáhalds jólaminning? Jólaminningin minnisstæðasta er líklega þegar ég var hjá mömmu og pabba og beðin um að vakta hangikjötið meðan pabbi og systir mín skruppu eitthvert og mamma var sofandi. Ég fer að spila á píanóið og heyri allt í einu eins og skrúfað sé frá vatni. Ég hugsa hvort ég hafi gleymt að skrúfa fyrir kranann og fer inn í eldhús. Þá er hvítur reykur yfir öllu, ég sé hangikjötið í pottinum en vatnið gufað upp. Ég hrifsa pottinn af hellunni og hleyp nokkra hringi um húsið með hann í örvæntingu um hvað skuli gera  við rjúkandi pottinn, enda á að opna gluggann og skjóta kjötinu út en enn rauk úr pottinum svo hann fékk að fljúga líka út um gluggann. Pabbi og systir mín voru einmitt að labba að húsinu þegar þetta átti sér stað, á móti þeim kom fyrst hangikjötið og potturinn fylgdi í kjölfarið. Þetta kennir fólki að láta ekki ó-kjötætu elda kjöt, þótt hún sé orðin 25 ára. 

Ljósmynd/Aðsend

Uppáhalds jólaskraut? Uppáhalds jólaskrautið er jólahúsið sem afi bjó til 1957 og svo auðvitað jólatréð. 

Minnistæðasta jólagjöfin? Minnistæðasta jólagjöfin eru líklega apaskottin sem við systur fengum 1997 og voru efst á óskalistanum. Skotti minn er enn til!

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Ég er ekki alin upp við miklar hefðir en ég er alltaf að reyna að skapa jólin sem ég upplifði sem barn hjá ömmu í Rauðholtinu. Þau voru fullkomin. Í seinni tíð er ég að fatta að þau voru ekki eins fullkomin fyrir fullorðna fólkið en amma mín var snillingur í að breiða þykkt teppi yfir öll vandamál og láta manni líða best í heiminum

Hvað er í jólamatinn? Í jólamatinn minn er sjàvarréttasúpa sem mamma mín hannaði eftir að ég hætti að borða kjöt. 

Ef þú ættir eina jólaósk? Mín jólaósk er að allir verði frískir og heilbrigðir og friður komist á alls staðar, í hjörtum fólks og heiminum öllum. 

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„Í þessum bransa gildir almennt að segja bara já og finna svo út úr því“
Næsta greinGaf konunni danskar krónur í umslagi og eitthvað súkkulaði úr sjoppunni