Síðastliðinn fimmtudag voru úrslit kunngerð í ensku smásagnakeppninni sem Félag enskukennara á Íslandi stendur fyrir á hverju ári í tilefni af Evrópska tungumáladeginum þann 26. september.
Þátttaka í þessari keppni er fyrir löngu orðinn fastur liður í skólastarfinu hjá Grunnskólanum í Hveragerði og á verðlaunaafhendingunni á forsetasetrinu á Bessastöðum átti skólinn tvo vinningshafa. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri tók nú þátt í fyrsta skipti og kom einn verðlaunahafinn frá skólanum.
Hera Fönn Lárusdóttir, nemandi í 6. bekk GíH og Árni Snær Jóhannsson, nemandi í 7. bekk GíH, fengu 1. og 2. verðlaun fyrir smásögur sínar í flokknum 6.-7. bekkur. Þá var Ívan Gauti Ívarsson, nemandi í 5. bekk í BES, einn af tveimur sigurvegurum í aldursflokki nemenda í 1.-5. bekk.
Krakkarnir tóku á móti viðurkenningarskjali og bókaverðlaunum á Bessastöðum og afhenti Eliza Jean Reid, forsetafrú Íslands, þeim viðurkenningarskjalið við hátíðlega athöfn.
Öllum skólum landsins er boðið að senda smásögur í keppnina sem fer þannig fram að nemendur skrifa enskar smásögur út frá ákveðnu þema, sem að þessu sinni var Power.

