Myndlistarsýning Hjördísar Alexandersdóttur opnaði í Galleríinu undir stiganum í Þorlákshöfn þann 3. nóvember síðastliðinn.
Sýningin er sjöunda einkasýning hennar en hún hefur einnig tekið þátt í mörgum samsýningum.
Verkin á sýningunni eru abstrakt myndi unnar með akrýl á striga en þær voru málaðar þegar Hjördís var á Suðureyri í maí og september síðastliðinn. Það má sjá á myndunum hverjar voru málaðar í vor þegar kuldinn var meiri og svo þær myndir sem málaðar voru í haust þegar náttúran var enn í blóma.
Hjördís er fædd í Reykjavík, ólst upp í Kópavogi en flutti til Þorlákshafnar fyrir um ári síðan. Hún hefur frá unga aldri lagt stund á myndlist og haft ríka sköpunarþörf.
Hjördís hefur í gegnum tíðina unnið við ýmis störf tengd myndlist, þó aðallega við kennslu. Hún rak fyrirtækið GalleryTorg um árabil sem var með námskeiðshald og seldi bæði eigin verk og annara listamanna.
Sýningin verður út nóvember og er opin á opnunartíma Bæjarbókasafns Ölfuss.