Hljómleikar undir yfirskriftinni „Hljómaskál“ verða haldnir í Skálholti að kvöldi miðvikudagsins 17. febrúar, kl. 19:30. Á tónleikunum verða frumflutt sex ný verk eftir þrjú ung tónskáld sem öll eiga búsetusögu í Biskupstungum.
Tónskáldin eru þau Hreiðar Ingi Þorsteinsson, sem ólst upp í Laugarási, Georg Kári Hilmarsson, sem ólst upp í Skálholti og Unnur Malín Sigurðardóttir, sem flutti í Tungurnar haustið 2014. Upphaf þessara tónleika má rekja til þess þegar Unnur flutti austur.
Þá byrjaði hún að syngja með Skálholtskórnum og hafði hún verið að semja tónlist fyrir hörpu og slagverkstvíeykið Duo Harpverk. Eftir því sem hún söng oftar á æfingum og tónleikum með kórnum í Skálholti fékk hún þá hugmynd að semja verk fyrir kórinn ásamt Duo Harpverk, til að flytja í Skálholti.
Undirbúningur hófst og fljótlega stækkaði verkefnið, tveimur tónskáldum var bætt við og í flytjendahópinn bættist Kammerkór Suðurlands. Nú hafa æfingar staðið yfir um nokkra hríð og er allt að verða klárt fyrir tónleikana sem fram fara í Skálholti þann 17. febrúar næstkomandi.
Hreiðar Ingi og Georg Kári sömdu hvort sitt verkið fyrir tilefnið en Unnur fjögur. Auk þess verða flutt eldri verk sömu tónskálda.
Kórstjóri Skálholtskórsins er Jón Bjarnason og kórstjóri Kammerkórsins er Hilmar Örn Agnarsson. Duo Harpverk samanstendur af Katie Buckley hörpuleikara og Frank Aarnink slagverksleikara.
Tónleikarnir hlutu styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem heyrir undir SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Aðgangseyrir 3.000 krónur.