Að kvöldi sumardagsins fyrsta mun kammerkórinn Hljómeyki flytja kórverkið Path of Miracles, eftir breska tónskáldið Joby Talbot, í Kristskirkju við Landakot og laugardaginn 27. apríl í Skálholtskirkju.
Verkið hefur ekki verið flutt áður á tónleikum á Íslandi. Tónleikarnir í Kristskirkju hefjast kl. 21 en tónleikarnir í Skálholtskirkju kl. 16. Stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson.
Path of Miracles var samið árið 2005 að beiðni hins þekkta Tenebrae kammerkórs og fjallar um ferðalag eftir Jakobsveginum, þekktustu leið pílagríma í Evrópu. Verkið er sannkallað stórvirki, sautján radda kórverk, að mestu án undirleiks en með fíngerðu slagverki á stuttum köflum sem Frank Aarnink sér um.
Margir Íslendingar þekkja Jakobsveginn
Margir Íslendingar kannast við þessa fjölförnu leið – hafa jafnvel gengið hana sjálfir eða hyggja á göngu. Það er kjörið að upplifa andaktina sem Talbot upplifði sjálfur í undirbúningnum að tónsmíðinni, þegar hann ferðaðist þessa pílagrímaleið ásamt fjölskyldu sinni.
Á þeim klukkutíma sem verkið tekur í flutningi, feta áheyrendur Jakobsveginn gegnum fjórar þekktustu vörður hans, borgirnar Roncevalles, Burgos, León og Santiago de Compostela og heyra mörg nokkur af þeim tungumálum sem verða á vegi pílagríma – og enn önnur sem urðu á vegi pílagríma fyrri alda.
Miðasala verður á tónleikastað en forsala aðgöngumiða fer fram hjá kórfélögum og kórnum sjálfum. Nánari upplýsingar um viðburðina eru á Fésbókarsíðu kórsins en einnig er hægt að senda fyrirspurnir á hljomeykid@gmail.com.