Hljómsveitin Flekar gefur út sína fyrstu plötu á morgun, mánudaginn 8. október. Sú nefnist Swamp Flowers, og verður útgáfunni fylgt eftir með ýmiskonar tónleikahaldi, meðal annars veglegum útgáfutónleikum á Húrra þann 24. október.
Platan verður gefin út sem glæsileg vínylplata og mun hljómsveitin kynna hana með litlum tónleikum í Reykjavík Record Shop þann 10. október og í Lucky Records þann 13. október. Platan verður einnig aðgengileg á Spotify og verða gefin út myndbönd við lögin á YouTube í kjölfar útgáfunnar.
Flekar eru alsunnlenskt band en hljómsveitina skipa þeir Skúli Arason, Sigurbjörn Már Valdimarsson og Vignir Andri Guðmundsson. Platan er alfarið spiluð, samin, tekin upp og hljóðblönduð af meðlimum sveitarinnar í heimahljóðveri og hefur verið legið yfir smáatriðum og farið á köflum hættulega nálægt sársaukamörkum í rit- og endurskoðun. Sibbi sá um upptökur og hljóðblöndun plötunnar og Skúli sá um hönnun og frágang umslagsins. Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun.
Heiðra gleymda perlu
Fyrstu lögin af plötunni sem fengið hafa að hljóma eru Without a Rider og Terrible Movies, sem hafa fengið góðar viðtökur. Lagið ‘Blue Whale Blues’ er nú kynnt til spilunar og má sjá glæsilegt myndband við lagið hér neðst í fréttinni. Myndbandið er gert af Skúla, trommara og hljómborðsleikara sveitarinnar, og er nokkurs konar heiðrun á svo til gleymdri perlu frá níunda áratugnum, sem er lagið Ástarblómmeð tónlistarmanninum Sigga Helga. Myndbandið við Ástarblóm er þannig sveipað dulúð og drunga sem varð til þess að Flekar leituðu í þann djúpa brunn við gerð Blue Whale Blues.