Undanfarin fimmtudagskvöld hafa Leifur Viðarsson og Már Ingólfur Másson staðið fyrir Pub Quiz á netinu sem hefur heldur betur slegið í gegn.
Fyrir þá sem ekki vita þá er Pub Quiz spurningaleikur sem fer venjulega fram á skemmtistað eða bar. Sökum samkomubanns eru allir skemmtistaðir lokaðir og því ekki hægt að halda hefðbundið Pub Quiz.
„Það var í raun algjör tilviljun að við byrjuðum að vera með Pub Quiz á netinu. Við höfum notað Kahoot heilmikið í kennslu og svo sá ég Youtube streymi þar sem einhver gaur í Bretlandi var að stýra lókal Quizi með Kahoot,“ segir Már í samtali við sunnlenska.is.
„Ég heyrði í Leifi og við smíðuðum hugmyndina á tíu mínútum. Við heyrðum í Tomma á Krúsinni og það er eiginlega honum að þakka að þetta hafi ekki bara verið einu sinni. Hann spurði strax hvort þetta yrði ekki vikulega. Síðan hefur fjöldi fyrirtækja á Suðurlandi sýnt áhuga á að gefa vinninga,“ segir Már.
Með 15 ára reynslu í Pub Quizi
Már og Leifur eru miklir reynsluboltar í Pub Quiz. „Við byrjuðum sumarið 2004 með Pub Quiz á Pakkhúsinu. Um vorið var ég með Pub Quiz fyrir Samfylkinguna og eftir það fórum við að útfæra þetta og halda reglulega. Við vorum á Pakkhúsinu þar til því var skellt í lás, fórum þá yfir á Kaffi krús, Pizza Islandia, Frón og Kaffi Selfoss. Við höfum verið á nánast öllum skemmtistöðum á Selfossi síðustu fimmtán árin,“ segir Már.
Már segir að viðtökurnar við Pub Quizinu á netinu hafi verið frábærar. „Fyrsta Quizið var með um 200 þátttakendum og svo 400 og þriðja með um 350. Það er mun meira en við bjuggumst við í upphafi. Við vorum að vonast eftir svona 100 sirka en viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum okkar og þetta er mjög skemmtilegt.“
Sjóaðir í að vinna saman
Að sögn Más hefur það gengið ótrúlega vel hjá þeim að semja spurningarnar. „Við erum orðnir nokkuð sjóaðir í að vinna saman og getum „rökrætt“ hlutina án þess að fara í fýlu. Núna höfum við valið flokka strax og svo malla inn spurningar fram á miðvikudag. Leiðréttum hjá hvor öðrum eins og þarf og bætum inn. Við höfum samið örugglega hátt í 10.000 spurningar síðan við byrjum að vera með Pub Quiz.“
Frábært að sjá nýtt fólk í toppsætinu
„Eins og er verðum við með Pub Quiz á netinu þar til samkomubanni lýkur. Svo er bara að skoða hvað verður með framhaldið. Aldrei að vita nema við höldum eitthvað áfram ef það verður áhugi fyrir því,“ segir Már.
„Það er frábært að sjá hve viljug fyrirtæki á svæðinu eru að taka þátt í þessu með okkur og líka að heyra frá fólki sem er ánægt með þetta. Við sjáum fullt af „gömlum kempum“ úr Quizunum okkar en svo líka heilan helling af nýju fólki. Svo er líka frábært að sjá alltaf nýtt fólk í toppsætunum,“ segir Már að lokum.
Leikurinn hefst kl. 21 á fimmtudagkvöld og verður hægt að finna hann á YouTube með því að slá inn Pub Quiz Selfossi.