Hr. Eydís sendi frá sér sannkallaða föstudagsbombu í gær þar sem gestasöngkonan Erna Hrönn tekur með þeim lagið „Total Eclipse of the Heart“ sem kom út með Bonnie Tyler fyrir fjörutíu árum síðan, eða árið 1983.
Lagið varð eitt það allra stærsta árið 1983 og hefur lifað góðu lífi allt fram á þennan dag og eignast á hverju ári nýja og yngri aðdáendur sem gjörsamlega elska lagið.
Erna Hrönn, sem mun verða gestur Hr. Eydís á Sviðinu á Selfossi 13. október, rúllaði laginu upp, en lagið þykir nokkuð erfitt og hentar ekki hverjum sem er.
„Skemmtileg staðreynd samt er að á Bretlandseyjum árið 2013 var gerð könnun á því hvaða lag væri vinsælast meðal Breta að syngja í sturtu. Það þarf ekki að koma á óvart að Total Eclipse vann með yfirburðum. Það má þó efast um hvort sturtusöngurinn almennt á Bretlandseyjum sé eins góður og hjá Ernu Hrönn. Það getur varla verið,“ segja strákarnir í Hr. Eydís.