„Austan rumba“ er frumlegt heiti sýningar Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, sem opnaði í Gerðubergi í Reykjavík fyrir skömmu.
Sýningin stendur til 21. ágúst og á henni eru 27 olíumálverk, öll máluð á þessu ári og seinni hluta síðasta árs.
Hrafnhildur Inga hefur haldið fjölda einkasýninga m.a. Ketilhúsinu, Hafnarborg, á Skriðuklaustri, í Start Art, Gallerí Fold, og Gallerí Ormi. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum á Íslandi og erlendis, svo sem í More North Gallery í New York, Nýmálað 2 á Kjarvalsstöðum, Spor þúsunda kvenna, listgjörningur í Garðabæ og Factory-Art New York. Verk eftir hana hafa verið til sýnis á listamessunum Art Copenhagen, Art Vilnius og Galeriazero í Barcelona. Verk hennar eru í eigu einkasafnara hér á landi og erlendis og í opinberum stofnunum víðsvegar um land.
„Ég mála landið mitt, fast og fljótandi. Vatn, haf, himinn og jörð eru mér hugleikin,“ sagði Hrafnhildur Inga í samtali við Sunnlenska.
„Ég hef eflaust mótast af umhverfl mínu, sveitinni, fjöllunum, jöklinum, víðáttunni, vötnum, sjónum og ölduganginum. Ég er alinn upp í Fljótshlíðinni. Frá barnæsku hef ég vanist því að horfa á ógnaröfl náttúrunnar en líka á mikla endurreisn og uppbyggingu. Þar hafa náttúran og maðurinn tekist á um aldir og ótrúlegt að sjá þær breytingar sem ásýnd landsins tekur við minnstu hræringar. Þetta snertir mig, gleður og grætir á víxl.“
Hrafnhildur er líka næmur ljósmyndari en tekur hún ljósmyndir og málar eftir þeim?
„Nei hreint ekki. Ljósmyndirnar eru sjálfstæð verk ef það má gefa þeim svo virðulegt nafn. Það sem ég mála kemur innan úr hausnum á mér, stundum með miklum erfiðismunum á löngum tíma. Þá geymi ég oft málverkið, sný mér að öðrum myndum og vitja hennar svo aftur síðar. Kannski hefst það þá, kannski ekki. Sem betur fer flæða litirnir oft greiðlega og næstum sjálfkrafa. Þá er gaman.“