Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir opnar sýningu kl. 18 í dag í art.passage.spittelberg í Vínarborg í Austurríki. Sýningin er samstarf Gallerí Foldar og art.passage.spittelberg.
Hrafnhildur Inga ólst upp í Fljótshlíðinni, þar sem opið hafið mætir ströndinni. Þar kynntist hún kröftum náttúrunnar, sem eru hennar helsti innblástur.
„Veðrið er sífellt á hreyfingu, það örvar hugann og veitir sköpunarkraftinum innblástur. Maður fær aldrei nóg af þessu stórbrotna meistaraverki náttúrunnar, möguleikar listsköpunar eru endalausir,“ segir hún.
Verk Hrafnhildar Ingu kalla fram hið mikla afl náttúrunnar á lifandi hátt. Þau fanga kyrrðina í miðjum storminum. Þessi óútreiknanleiki mótar líf og málfar Íslendinga. Þegar umræðuefnið er veður eða sjór, hafa Íslendingar ríkan orðaforða til að lýsa því. Það notar Hrafnhildur og gefur verkum sínum nöfn mismunandi veðurfyrirbrigða, sum þeirra eru sjaldan notuð í daglegu tali.
Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir útskrifaðist árið 1984 frá Listaháskóla Íslands. Eftir 15 ára starfsferil í auglýsingaiðnaðinum sneri hún sér að málverki árið 2000. Síðan þá hafa verk hennar hlotið mikla viðurkenningu og verið sýnd á fjölmörgum einkasýningum á Íslandi og erlendis. Einnig hefur hún tekið þátt í ýmsum samsýningum og listmessum í Evrópu og Bandaríkjunum.