Hraustir menn og Elvis í Hvolnum

Karlakórinn Þrestir. Ljósmynd/Aðsend

Karlakórinn Þrestir hélt eins og venjulega tónleika í Hafnarfirði í vor. Yfirskrift tónleikanna var Hraustir menn og Elvis og þóttu takast mjög vel.

„Okkur þótti því tilvalið að hefja starfið í haust með því að rifja upp dagskrána og fara með hana víðar. Við ætlum því að halda tónleika í Hvoli fimmtudaginn 26. september kl. 20 og verður dagskráin sú sama og í vor,“ segir Björgvin Þórisson, formaður Þrasta.

„Á fyrri hluta tónleikanna verða hefðbundin karlakóralög, m.a. Hraustir menn og lög eftir stofnanda kórsins, Friðrik Bjarnason, ásamt fleirum. Í síðari hlutanum tekur svo Elvis völdin og liðkar á okkur mjaðmirnar svo að við förum öll liðug út í kvöldið eftir tónleikana. Þarna ætti að vera eitthvað fyrir alla og vonumst við til að sjá sem flesta í Hvolnum,“ bætir Björgvin við.

Hljómsveit kórsins leikur undir í Elvishlutanum og kórstjóri og undirleikari er Árni Heiðar Karlsson. Miðaverð er 4.000 kr. og er innheimt við innganginn.

Fyrri greinFramkvæmdir hefjast við fjölnota íþróttahús í Árnesi
Næsta greinEkki nóg að vera með ljósin á „auto“