Heimildarmyndin Hreint Hjarta eftir Grím Hákonarson verður frumsýnd næstkomandi föstudag, 12. október, í Bíó Paradís og Sambíóunum á Selfossi.
Myndin var valin besta heimildarmyndin á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg 2012.
Hreint Hjarta fjallar um Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprest á Selfossi. Hann er litríkur persónuleiki sem er ekkert óviðkomandi þegar kemur að þjónustunni við sóknarbörnin. Kristinn þykir góður sálusorgari og margir leita til hans um hjálp. En á meðan hann leysir úr vandamálum annarra þarf hann að glíma við eigin vandamál og stendur í deilum við yfirvöld innan kirkjunnar.
Myndin verður aðeins sýnd á Selfossi um næstu helgi, á föstudag kl. 20 og laugardag og sunnudag kl. 18 og 20. Síðasta sýningin á Selfossi er svo á þriðjudag kl. 20.