„Ég er mjög ánægður með myndina,“ segir Grímur Hákonarson sem er maður á bakvið myndina Hreint Hjarta, heimildarmynd um Kristinn Ágúst Friðfinnsson, prest á Selfossi, sem verður sýnd í Selfossbíói í kvöld.
„Þetta er mjög persónuleg lýsing á presti,“ þannig lýsir Grímur myndinni í grófum dráttum. Myndin er um það sem var að gerast í lífi hans síðustu tvö ár. Hann segir rauða þráðinn í myndinni vera sálgæslustörf Kristins.
„Í myndinni sést til dæmis þegar Kristinn kveður niður draug á sveitabæ,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn.
„Þetta er hlið á starfinu sem fólk fær venjulega ekki að sjá,“ segir Grímur en myndin sýnir Kristin einnig glíma við erfiðleika í einkalífinu. „Á þessum tíma voru deilur innan kirkjunnar.“
Sem fyrr segir hefjast sýningar á myndinni í Selfossbíói í kvöld og gefst fólki þar möguleiki á að sjá verkið. „Það er mjög gaman að Sambíóin hafi viljað sýna myndina, því hún gerist þarna rétt hjá bíóinu,“ segir Grímur.
Myndin verður sýnd kl. 20 í kvöld, svo verða tvær sýningar laugardag og sunnudag kl. 18 og 20 og síðasti sýningardagurinn er þriðjudaginn 16. október kl. 20.
Nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.