Hringiða opnuð í Listasafninu

Sýningin „Hringiða – Cyclone“ verður opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í dag kl. 12. Sýningin er einnig er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Hringiða er margmiðlunarinnsetning þar sem hljóð og mynd hreyfa við hugmyndum um landamæri eða mörk, raunveruleg og ímynduð. Um er að ræða samvinnu við finskan sýningarstjóra, Mari Krappala og sex listamenn íslenska og erlenda. Við opnuna verður fluttur gjörningur eftir Lilju Birgisdóttur.

Frá Íslandi leggja listamennirnir Katrín Elvarsdóttir fram ljósmyndir og Lilja Birgisdóttir hljóðverk. Þrír finnskir ljósmyndarar, Eeva Hannula, Hertta Kiiski og Tiina Palmu hafa í semeiningur unnið tvö myndbönd fyrir sýninguna og frá eistneska listamanninum Marko Mäetamm koma þrívíð verk. Á sýningunni eru ný verk sem ekki hafa verið sýnd áður nema verk Mätamm sem tilnefnt var til virtra eistneskra verðlauna 2012, Köler verðlauna Samtímalistasafnsins í Tallin, en það er nú sett upp í nýju og stærra samhengi.

Mari Krappala er rithöfundur og fræðimaður um samtímalist og dósent í menningar- og feministafræðum við Aalto listaháskólann í Helsinki. Hún hefur líka unnið sem sýningarstjóri með ýmsum sjálfstæðum þverfaglegum listahópum. Katrín Elvarsdóttir útskrifaðist með BFA-gráðu í ljósmyndun frá Art Instistute of Boston, USA 1993. Hún hefur sett upp nokkrar einkasýningar á Íslandi en líka átt verk á fjölmörgum samsýningum víða um heim. Verk hennar hafa verið tilnefnd til ýmissa virtra verðlauna eins og heiðursverðlauna Myndstefs 2007 og Deutsche Börse Photographic Prize 2009.

Lilja Birgisdóttir útskrifaðist með BFA-gráðu frá Listaháskóla Íslands 2010. Hún var höfundur opnunarverks Listahátíðar í Reykjavík 2013, The Vessel Orchestra, sem var átta mínútna langt skipsflautuverk.

Eeva Hannula stundar meistaranám í ljósmyndun við Aalto lista-, hönnunar og arkitektaháskólann í Helsinki Finnlandi. Nýlega var hún valin af alþjóðlega ljósmyndatímaritinu Foam Magazine á sýningu sem efnilegur ljósmyndari. Hertta Kiiski stundar meistaranám í Tíma- og rýmis-prógrammi Finnska listaháskólans í Helsinki. Hún vinnur með ljósmyndir, hreyfimyndir og innsetningar.

Tiina Palmu stundar meistaranám við Finnska listaháskólann í Helsinki og hefur einkum fengist við ljósmyndun.

Marko Mäetamm lauk meistaranámi frá Listaháskólanum í Eistlandi 1995. Hann vinnur verk sín ýmist sem ljósmyndir, skúlptúra, hreyfimyndir, málverk eða texta. Verk hans segja sögur sem gerast bakvið luktar dyr og glugga í því afskermaða einkarými sem við köllum heimili. Þar er hið gráa svæði kannað þar sem tvíræð tilfinning fyrir því að stjórna og vera stjórnað renna saman. Með svörtum húmor dregur Mäetamm upp mynd af samfélagi fjölskyldunnar og skoðar hvernig því er stjórnað af stærra samfélagi háð hagfræði, neyslustefnu og lífsgæða stöðlum enn stærra kerfis. Hann var fulltrúi Eistlands á Feneyjartvíæringnum 2007.

Sýningin Hringiða mun standa til 6. júlí. Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18, aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Fyrri greinBætti 32 ára gamalt héraðsmet
Næsta greinMaddý: Önnur saga af sveitarfélagi