Björn Rúriksson, flugmaður, ljósmyndari og leiðsögumaður á Selfossi, hefur sent frá sér nýja bók sem nefnist Flogið aftur í tímann.
Í bókinni eru loftmyndir af öllu þéttbýli á Suður- og Suðvesturlandi, sem og af höfuðborgarsvæðinu sem teknar voru síðastliðið sumar og í haust. Einnig er flogið aftur í tímann og ófá svæði sýnd til samanburðar, meðal annars Selfoss, Hvolsvöllur og Vík í Mýrdal eins og þéttbýlið var fyrir 35-45 árum síðan.
Þess utan eru stórir drættir í náttúru Íslands sýndir og stórstígar breytingar sem orðið hafa á nokkrum jöklum frá miðjum áttunda áratugnum og fram til nútímans. Nokkrir jöklar eru teknir til skoðunar, en þó sérstaklega tveir, Sólheimajökull og Breiðamerkurjökull með Jökullónið framan við.
Hrjóstrugir staðir hafa tekið stakkaskiptum
Björn segir að í algjöru verkefnaleysi í Covid-19 hafi hann sett ég undir sig hausinn og búið til þessa bók.
„Það var eiginlega í þessum heimsfaraldri sem hugmyndin fæddist að þessari bók. Á flugferðum mínum um landið af ýmsum tilefnum í hálfa öld byggðist upp ljósmyndasafn af bæjum og borg, og myndir teknar á öllum árstíðum. Ég hef kosið að reyna að sýna þessar eldri myndir í samhengi, sérstaklega þar sem sami staður frá líku sjónarhorni er borinn saman yfir langt árabil, og líða oft 40-45 ár á milli. Þessi samanburður er vissulega mis áhugaverður, en flestir ættu að finna eitthvað bitastætt í sínu nánasta umhverfi,“ segir Björn og bætir við að það sé einkum tvennt sem veki athygli.
„Annars vegar hefur orðið breyting á byggð og umhverfi, þar sem jafnvel heilu íbúðarhverfin hafa risið. Og hins vegar er sláandi munur orðinn á gróðurfari og einkum trjágróðri. Margir staðir voru hrjóstrugir og ekki sérlega aðlaðandi, en á fjörutíu árum hafa þeir skrýðst miklum gróðri og tekið stakkaskiptum.“
Bókin er á íslensku og ensku (í einni bók), 228 síður í stóru broti og er meðal annars fáanleg í Bókakaffinu á Selfossi, A4, Bónus, Nettó og á N1 á Suðurlandi.